heim forsaga golfvöllur klúbbhús æfingahús frístundahús hluthafar samband


Golfborgir - þar sem byggður verður hágæða golfvöllur að Minni Borg í Grímsnesi.
Hugmyndin

Viðskiptahugmyndin að baki Golfborgum

Hugmyndin um hágæða golfvöll við Minni Borg í Grímsnesi hefur nú verið í þróun og útfærslu í fjögur ár. Í upphafi var það ekki byggingin á golfvellinum sjálfum sem freistaði þeirra er undirbúið hafa þetta verkefni, heldur f.f. sú hugmynd að skipuleggja og byggja spennandi afþreyingarsvæði umhverfis hágæðagolfvöll. Golfáhugamenn telja það flestir lítið mál að aka nokkra vegalengd til að leika sínar 18 holur og halda síðan heim á leið. Þeim fer hins vegar fjölgandi sem sjá kosti þess að geta boðið fjölskyldu sinni eða vinum með í för. Þannig er auðvelt að tengja hvíld og afþreyingu því að eyða tíma með fjölskyldu eða vinum.

Hugmyndin að Golfborgum hefur verið kynnt völdum aðilum og óhætt er að segja að hún hafi vakið hrifningu og þann hljómgrunn sem hvatt hefur aðstandendur til að halda áfram undirbúningnum.

Þar sem vinna og skemmtun fara saman
Golfborgir bjóða þann áhugaverða möguleika að flétta saman vinnu og skemmtun ef það er eitthvað sem hentar. Í Golfborgum verður boðið upp á vandaða funda- og ráðstefnuaðstöðu með gistingu og veitingahúsi, svo að segja inni á einum af betri golfvöllum landsins.

Mikil eftirspurn
Ábúandinn á Minni Borg, Hólmar Bragi Pálsson, hefur margra ára reynslu og þekkingu í uppbyggingu sumarhúsabyggðar í Grímsnesinu. Hólmar er framkvæmdastjóri Borgarhúsa, en það fyrirtæki hefur tekið að sér að vinna lóðir, byggja undirstöður fyrir bústaði, taka í gegn eldri hús og byggja frístundahús af ýmsum stærðum og gerðum. Hann hefur tekið virkan þátt í að gera Grímsness- og Grafningshrepp að stærstu sumarhúsabyggð landsins með á þriðja þúsund sumarhúsa.

Hólmar hefur vakið athygli á því að afþreyingarmöguleikar á svæðinu hafa ekki vaxið í sama mæli og byggðin. Nokkrir golfvellir eru á svæðinu og aðsókn að þeim hefur verið gífurleg á sumrin. Það er ljóst að enn er mikil eftirspurn eftir golfvelli meðal “íbúa” svæðisins og ekki síður úr öðrum landshlutum. Rannsóknir á framtíð ferðamannaþjónustu sýna fram á að eftirspurn þessari tegund afþreyingar á eftir að fara vaxandi. Önnur afþreying á svæðinu hefur verið af skornum skammti. Golfborgir munu breyta þessu landslagi svæðisins.

Ekki bara golf
Aðstandendur Golfborga leggja mikla áherslu á að skipuleggja fjölbreytta afþreyingu fyrir gesti svæðisins. Auk hágæða golfvallar er hugmyndin sú að skipuleggja frístundahúsabyggð við jaðar vallarins þar sem seld verða nokkur vönduð sumarhús, önnur hús sett í langtímaleigu og nokkur í skammtímaleigu. Stofnað hefur verið fyrirtækið Minni Borgir ehf. sem er að hefja þessar framkvæmdir.

Golfborgir munu ekki einungis bjóða frábæra aðstöðu til golfiðkunar. Á svæðinu verða einnig leikvellir fyrir yngri íbúana, skipulagðir verða göngustígar og sérstakt svæði fyrir silungsveiðar. Þá verður einnig mögulegt að bregða sér á hestbak og jafnvel að leigja aðstöðu fyrir reiðhross.

Kosturinn við Golfborgir er í meginatriðum sá að hér er afþreyingarkostur á ferðinni sem enginn hefur enn ráðist í á Íslandi en Íslendingar þekkja vel erlendis frá og ljóst er að mikil eftirspurn er eftir hér á landi.

Eins og áður sagði hefur þessi hugmynd hlotið góðar viðtökur hjá þeim völdu aðilum þar sem hún hefur verið kynnt. Undirbúningur og skipulagning næstu aðgerða er í fullum gangi.