heim forsaga golfvöllur klúbbhús æfingahús frístundahús hluthafar samband

 

Golfborgir - þar sem byggður verður hágæða golfvöllur að Minni Borg í Grímsnesi.
Golfvöllurinn
- Lýsing

Edwin Roald Rögnvaldsson golfvallaarkitekt um Golfborgir í Grímsnesi
Hálfur sigur er þegar unninn

Ég kom fyrst að verkefninu Golfborgir fyrri hluta ársins 2002. Það sem vakti áhuga minn á því var hinn augljósi metnaður sem ríkir hjá aðstandendum þess. Hólmar Bragi Pálsson, landeigandi að Minni-Borg og þaulreyndur jarðvinnuverktaki, hefur orð á sér fyrir að vera sérlega vandvirkur. Það sá ég með berum augum nú síðastliðið sumar er unnið var að byggingu frístundahúsa skammt ofan við það svæði sem golfvellinum er ætlað. Þar er allur frágangur til fyrirmyndar. Það er ekki síst þess vegna sem ég óska þess heitt og innilega að Golfborgir verði að veruleika.

Eins og sjá má á teikningunni, afmarkast landið af Biskupstungnabraut í norð-vestri og Sólheimavegi í suð-vestri. Ætlun okkar er að ýta upp landi í óreglulega hryggi við þennan jaðar vallarins og stuðla þannig að aukinni friðsæld. Innan þessara “veggja” viljum við skapa sannkallaðan ævintýraheim.

Land Golfborga hentar vel til golfvallagerðar. Í raun tel ég að með því, auk þekkingar og reynslu aðstandenda verkefnisins, sé hálfur sigur unninn nú þegar. Lagður hefur verið grunnur að þaulskipulögðu byggingarferli, þar sem áhersla er lögð á hin margvíslegu smáatriði sem ég er fullviss um að muni gera gæfumuninn.

Umfangsmikil landmótun

Við upphaf framkvæmda verða um 200 þúsund rúmmetrar jarðvegs hreyfðir til með stórum ýtum. Land verður víða lækkað, t.d. víða umhverfis lækinn, sem rennur gegnum svæðið, og efni þaðan notað til að móta hryggi meðfram vallarmörkum. Umfang þessarar vinnu er mest þar sem landið þarfnast breytinga, m.a. til að glæða golfvöllinn nægjanlegu lífi og leiða ofanvatn frá viðkvæmum svæðum hratt og örugglega. Önnur svæði taka litlum sem engum breytingum. Þar verður stólað á sköpunargáfu náttúruaflanna, og þar sem stórvirkar vinnuvélar koma við sögu verður líkt gaumgæfilega eftir pensilstrokum móður náttúru þannig að gests augað geti ómögulega hent reiður á hvar landi var raskað og hvar því var leyft að halda sér.

Hagkvæm hönnun

Gætt hefur verið sérstaklega við hönnun vallarins að ýtuvinna geti orðið sem hagkvæmust. Með því er átt við vegalengdir sem vélum er ætlað að ýta jarðvegi. Hvar þar sem gert er ráð fyrir lækkun lands hefur efninu sem úr því kemur verið fundinn staður í næsta nágrenni, og öfugt. Komið skal í veg fyrir að flytja þurfi jarðveg með því að moka honum á bíl, losa á nýjum stað og ýta úr honum þar. Hlutfallslega, miðað við heildarkostnað við framkvæmdir, sparar þetta óheyrilega fjármuni og getur skilið milli feigs og ófeigs.

Ósýnilegir metrar

Par vallar verður 71 högg og heildarlengd brauta 6.066 metrar frá meistarateigum karla. Þetta segir ekki alla söguna, því völlurinn mun vera sérstæður að því leyti að á honum verða sex par-3 brautir. Því jafngildir þessi heildarlengd brauta í Golfborgum u.þ.b. 6.400 til 6.500 metrum á dæmigerðum par-72 velli með fjórum par-3 brautum. Það er því ljóst að völlurinn verður fullkomlega boðlegur í keppni á meðal þeirra bestu.

Hola í höggi

En hvers vegna svo margar par-3 brautir? Þar komum við enn og aftur að umræðunni um aukna högglengd kylfinga og hversu sjaldan þeir bestu þurfa að grípa til lengri áhaldanna í pokanum. Þessu verður best stjórnað á par-3 brautum, því að á par 4- og par 5-brautum þarf lengdarmunur að vera meiri á milli klúbbteiga og meistarateiga. Til þess þarf meira land, auk þess sem þetta leiðir oft af sér lengri gang frá flöt til teigs. Í Golfborgum verða fjórar par-3 brautir um 160 metrar eða lengri (159 til 190 m). Þar gefst því gott færi á að reyna á hæfni hinna högglengri með kylfum sem þeir þurfa annars sárasjaldan á að halda. Það sem gerir þetta að enn jákvæðari lausn er að par-3 brautir eru oft í uppáhaldi hjá hinum almenna kylfingi, þar sem þær gefa mesta möguleika á fugli, að ógleymdu sjálfu draumahögginu.

Minna um leiktafir

Stefnt er að því að leikur í Golfborgum geti gengið greiðlega fyrir sig. Brautir verða almennt breiðar og grasið utan þeirra fremur viðráðanlegt, þannig að bolti ætti undantekningalítið að finnast auðveldlega. Völlurinn á einnig að vera auðveldur í göngu. Svæðið skartar víða áhugaverðu, öldóttu landslagi, en hvergi er um að ræða fjallgöngur. Kappkostað er að halda fjarlægð frá flöt til næsta teigs í skefjum.

Fjölbreytileiki í fyrirrúmi

Gilið, eða lækurinn, gegnum völlinn kemur við sögu með fjölbreytilegum hætti. Lækur sem þessi er ákjósanleg vatnstorfæra, þar sem hann freistar kylfingsins mun betur en stór tjörn eða vatn. Ef boltinn fer ofan í lækinn getur kylfingurinn oftast sótt boltann sinn og látið hann falla á lækjarbakkanum gegn einu vítishöggi. Á hinn bóginn tapast mun meiri vegalengd, að viðbættu vítishögginu, ef slegið er ofan í stærri tjörn. Tvær tjarnir verður þó að finna á vesturhluta svæðisins, en þær hafa lykilhlutverki að gegna við að taka við ofanvatni, sem leitt verður frá viðkvæmum svæðum með yfirborðsmótun og lögnum neðanjarðar.

Sérstæðar sandgryfjur

Ófáar sandgryfjur munu prýða völlinn og verður eflaust litið á þær sem sérkenni vallarins. Margar þeirra verða tilkomumiklar ásýndum og hvetjandi fyrir kylfinginn til að sýna það sem í honum býr. Kappkostað verður að gefa sandgryfjunum náttúrulegt yfirbragð og búa þannig um hnútana að þær falli inn í landslagið. Munum við t.d. koma fyrir lyngi víða í jöðrum þeirra. Það mun einnig stuðla að aukinni litskrúð á svæðinu.

Golfvöllur fyrir alla

Eins og áður segir er ætlun okkar að brautir verði breiðar og grasið utan þeirra slegið fremur snöggt. Á hinn bóginn munu flatir vallarins verða hannaðar þannig að þær taki aðeins við höggum úr ákveðinni átt, eða mismunandi áttum eftir því hvar holunni hefur verið valinn staður á flötinni hverju sinni. Í ljósi þessa er áfram krafist nákvæmni í teighöggum, rétt eins og ef brautin væri örmjó. Refsingin kemur bara fram með öðrum hætti og hefur ekki í för með sér tímafreka leit að bolta.

Við vitum að lágforgjafarmaður hefur aðrar vætingar og gerir ekki einungis kröfu um að hitta flötina, heldur vill hann komast nærri holunni í innáhöggum sínum. Til þess þarf hann að hafa komið sér vel fyrir á brautinni. Annars verður næsta högg þeim mun erfiðara, en þó ekki ómögulegt. Kunna þá að skapast aðstæður þar sem hann ætlar sér um of, og þá fyrst er voðinn vís. Hefur hann þá verið leiddur í gildru, sem þá verður aðeins flúin með ævintýralegum hætti. Slík undankoma lifir í minningunni, mun lengur en gleðitilfinning í kjölfar þess sem vel tekst. Galdurinn er einmitt að skapa slíkar aðstæður, þar sem skammt er milli frækinna sigra og glötunar.

Dýrðlegt sjónarspil

Golf er afþreying. Golfvöllur á að vera sjónarspil, veisla fyrir skynfærin sem slegið hefur verið upp með því að kalla fram og ýta undir dýrðleika náttúrunnar. Þangað er kylfingurinn kominn til að skemmta sér. Þar skal hann standa frammi fyrir æðisgengnum torfærum, sem kunna að vera óyfirstíganlegar við fyrstu sýn, en eru það í raun ekki þegar að er gáð. Hans skal freistað og veitt verðlaun í samræmi við þá áhættu sem hann tekur. Sá sem ávallt velur hættuminni leið kann að komast klakklaust heim í hús, en hann kemur þangað grunlaus um hvað hann hefði getað afrekað þann dag. Í Golfborgum viljum við að kylfingar njóti vallarins, burtséð frá höggafjölda. Það er fyrst þá sem þeir hafa uppgötvað lystisemdir golfleiksins.

Virðingarfyllst,

Edwin Roald Rögnvaldsson
Golfvallaarkitekt
Associate hjá European Institute
of Golf Course Architects