heim forsaga golfvöllur klúbbhús æfingahús frístundahús hluthafar samband


Golfborgir - þar sem byggður verður hágæða golfvöllur að Minni Borg í Grímsnesi.
Klúbbhúsið

Klúbbhús í lúxusflokki - Lýsing á húsinu

Neðsta hæð:
Innangengt frá golfvelli þar sem aðstaða verður fyrir golfiðkendur til að skipta um föt. Þar verða búningsklefar með skápum, sturtum og snyrtiaðstöðu fyrir bæði kyn. Þá verður sameiginlegt svæði með gufuböðum, heitum potti og líkamsrækt. Skrifstofa og aðstaða fyrir starfsmenn vallarins, sjúkrastofa, barnagæsla, geymslurými fyrir golfpoka, þurrkherbergi fyrir fatnað og fleira. Myndarleg setustofa, næst golfvellinum, þar sem golfiðkendur geta farið inn á gaddaskónum og fengið sér næringu, fyllt út skorkort og spjallað.

 

Millihæð:
Veitingastaður fyrir yfir 120 manns, eldhús, skrifstofa framkvæmdastjóra og verslun. Hér verður aðalinngangur frá bílastæðum, hér koma menn inn til að skrá sig á svæðið og grípa nauðsynlega hluti úr versluninni. Ekki þarf að fara úr gólfskónum hér frekar en menn vilja. Inn af móttökunni er komið í veitingasalinn. Þar mun langur bar blasa við með allri afgreiðslu veitinga. Gert er ráð fyrir að staðurinn hafi fullt veitingaleyfi, þar á meðal fyrir vínveitingar. Lögð verður áhersla á að bjóða allar máltíðir dagsins frá morgunverði til kvöldkaffis í húsinu, sérstaklega yfir háannatímann. Veitingaaðstaða verður væntanlega leigð út, en gert er ráð fyrir að hún muni einnig að nokkru leyti þjóna frístundahúsabyggð golfvallarins. Lögð verður áhersla á vandaðar veitingar sem hæfa klúbbi sem þessum.

Efsta hæð:
Skemmtilegur veitingasalur fyrir meira en 40 manns, fundaherbergi og setustofa með sjónvarpsskjám sem tengjast gervihnattadiski. Mikil útsýnisverönd umlykur klúbbhúsið, á góðviðrisdögum verður þar boðið upp á viðeigandi veitingar. Þá verður spennandi að bregða sér út á svalir efstu hæðar með útsýni yfir allan völlinn. Einnig er gert ráð fyrir glæsilegu útsýni úr veitingasölum klúbbhússins.

Mikil áhersla verður lögð á gott streymi umferðar við klúbbhúsið, bæði bifreiða og gangandi golfáhugamanna. Stutt verður í upphafshöggið á fyrstu braut frá húsinu, en á meðan beðið er verða 2 æfingaflatir þar í sjónmáli. Þegar lokið er 9 holum eða 18, verður endapunktur í báðum tilvikum nálægt klúbbhúsi. Á leið í klúbbhúsið getur golfleikarinn numið staðar og hreinsað undan skóm með tilheyrandi loftþrýstidælum eða mottum. Þá má nefna að allt aðgengi hreyfihamlaðra að klúbbhúsinu verður til fyrirmyndar. Góð aðstaða verður fyrir menn til að geyma golfpoka og kerrur við klúbbhúsið, jafnt utandyra sem innan.

Í nokkurra metra fjarlægð frá klúbbhúsinu verður skýli fyrir rafbíla sem leigðir verða til vallargesta. Vélageymsla verður við jaðar vallarins, þar sem vélar og tæki vallarins verða geymd.